Markmið ástandsskoðunar

Markmiðið með ástandsskoðun er að upplýsa viðskiptavini um raunverulegt ástand fasteigna. Við gerum það með hlutlausri skoðun og stöðluðum verkferlum. Almennt ástand byggingahluta er metið, viðhaldsþörf krufin, mælt er fyrir raka og sýni tekin ef grunur er um örveruvöxt. Við ráðleggjum viðskiptavinum hvernig haga skal viðhaldi á svæðum þar sem ástand er óviðunandi og hvernig takast skal á við rakaskemmdir og mögulegan örveruvöxt. Þrif á örveruvöxt og aðrar framkvæmdir sem ekki er lýst hér að neðan eru ekki hluti af ástandsskoðuninni.

Ástandsskoðanir:

Innifalið í verði á ástandskoðunum er tímagjald skoðunarmanns, skýrslugerð og notkun viðeigandi tækja. Greiða þarf aukalega fyrir sýnatöku/greiningu vegna gruns um örveruvöxt. Einnig þarf að greiða aukalega fyrir þakskoðun, ef skoðunarmaður á að fara upp á þak eða mynda það með dróna/flygildi.

Grunnskoðun:

Innifalið í verði á grunnskoðun er tímagjald skoðunarmanns við það að koma sér á verkstað og notkun viðeigandi tækja á verkstað. Miðað er við að tími við akstur og skoðunin sjálf fari ekki yfir 2 klst. Ef ferðatími, skoðun og vinnsla greinagerðar fer yfir 2 klst þarf að greiða fyrir skýrslugerð, akstur, sýnatöku/greiningu, skoðun á óaðgengilegum svæðum og tækjabúnaði sem þarf að leigja vegna skoðunar.

Sýnataka:

Sýni eru ekki tekin nema að beiðni viðskiptavinar. Sé óskað eftir nánari greiningu sýna þarf að senda það/þau til Náttúrufræðistofnunar Íslands (NÍ) og viðskiptavinur greiðir NÍ fyrir þá greiningu. Innifalið í sýnatöku er sýnatakan sjálf en þar sem öll sýni eru send í greiningu til NÍ á Akureyri þarf að greiða umsýslugjald og sendingarkostnað fyrir þau sýni sem eru send.

Skýrslugerð:

Skýrslugerð er innifalin í verði á ástandsskoðunum. Við aðrar skoðanir er hægt að óska eftir skýrslu og er hún unnin í tímavinnu. Fjöldi tíma fer eftir umfangi skoðunar.

Akstur:

Akstur til og frá verkstað er innifalinn í verði á ástandsskoðunum og grunngjaldi innan höfuðborgarsvæðisins. Akstur utan höfuðborgarsvæðisins fer eftir kílómetrafjölda og ferðatíma.

Yfirvinnugjald:

Öll verð miðast við að unnið sé í dagvinnu milli klukkan 08:00 og 18:00 á virkum dögum. Eftir þann tíma leggst yfirvinnugjald á tímagjald.

Framkvæmd

Eignin er skoðuð að utan sem innan og þeir gallar sem skoðunarmaður tekur eftir eru skráðir niður. Að utan eru einungis aðgengileg svæði skoðuð annars eru þau skoðuð frá jörðu. Byggingahlutar ofar en 3 metra frá jörðu eru ekki skoðaðir vegna fallhættu. Sérstakar ráðstafanir þarf að gera ef skoða á slíka byggingahluta og greiða þarf sértaklega fyrir þá vinnu. Allur kostnaður við tækjaleigu fellur á viðskiptavin.

Skoðunarmaður framkvæmir hlutfallsrakamælingar á byggingahlutum en einnig notar hann hitamyndavél sér til stuðnings. Hlutfallsrakamælarnir gefa skoðunarmanni vísbendingu um hlutfallsrakastig en ekki raungildi raka í byggingarhlutanum. Hver ástandsskoðun tekur u.þ.b. 2 klukkustundir með ferðatíma.

Niðurstöður og athugasemdir

Viðskiptavinur ræður því hvort hann fái senda skýrslu með niðurstöðum eða munnlega umsögn. Greiða þarf aukalega fyrir skriflega skýrslu, verð fer eftir umfangi skýrslunnar því hún er unnin í tímavinnu. Viðskiptavini er ekki heimilt að dreifa skriflegri skýrslu til þriðja aðila. Öðrum en viðskiptavini er óheimil afnot af skýrslu nema með leyfi Fagmats og gegn greiðslu samkvæmt gjaldskrá.

Fyrirvarar

Ekki er skoðað inn í veggi, né heldur undir gólfefnum eða á bakvið innréttingar, sturtubotna og baðkör. Ekki er skoðað bakvið ýmiss konar klæðningar, fasta spegla, listaverk eða stóra fataskápa/kommóður. Raf-, neyslu-, dren og fráveitulagnir eru ekki skoðaðar nema sértaklega sé beðið um það. Þá þarf að kalla til sérfræðinga á því sviði og greitt er fyrir það sértaklega. Ástandsskoðunarskýrsla er unnin á grundvelli þeirra gagna og upplýsinga sem skoðunarmaður aflaði og hafði aðgang að á þeim tíma er fasteignin var skoðuð og vísað er til í skýrslunni. Allar niðurstöður og ályktanir skoðunarmanns sem fram koma í skýrslunni byggjast á því að fyrrnefnd gögn og upplýsingar séu viðhlítandi og réttar. Ástandsskoðunarskýrsla á aðeins við um þá fasteign sem skoðuð er og skýrslan tekur til. Varast skal að horfa einvörðungu til efni skýrslunnar þegar tekin er ákvörðun um fasteignakaup. Óheimilt er að nota skýrsluna í öðrum tilgangi en í tengslum við ákvarðanatöku um kaup á fasteign eða upplýsingaöflun um ástand eigin eignar.

Í samræmi við skilmála Fagmats ehf. takmarkast öll hugsanleg skaðabótaábyrgð félagsins og starfsmanna þess við fjárhæð sem nemur að hámarki heildarþóknun Fagmats ehf. vegna skoðunar og skýrslugerðar.